Velkomin á vef MA stúdenta 1988

Home » 2013 » June

Monthly Archives: June 2013

Frábærri Jubílantahátíð lokið

Kæru Jubílantar nær og fjær

Þökkum ykkur kærlega fyrir komuna á Jubílantahátíð MA 2013 – alls mættu um 730 manns í Höllina og enn fleiri bættust í hópinn þegar leið á kvöldið. Það var því kátt í Höllinni og hápunktur kvöldsins var að sjálfsögðu þegar hvítu kollarnir flugu um loftið.
Hér má sjá Sigrúnu Kristjánsdóttur formann undirbúningsnefndar og fyrrverandi formann Hugins setja hátíðina.

IMG_0705

Gleðilega hátíð kæru MA jubílantar

Þá er stóri dagurinn runninn upp og Höllin komin í sinn fínasta búning.
Ma88 stúdentar voru mættir eldsnemma í morgun til að blása upp 400 blöðrur.
photo (4)

Þrátt fyrir trylltan dans og söng fram á nótt voru þeir alls ekki loftlausir.

blöðrumynd MA

Síðasti séns í miðakaup

Þeir sem gleymdu að panta miða á hátíðina eða langar einfaldlega ekki að missa af þessari frábæru skemmtun geta hringt í síma 462-1818 hjá Bautanum. Minnum enn og aftur á að ná þarf í miðana í Höllina á morgun og sunnudag frá kl. 13-18.

 

 

Jubílantar í föstudagsþætti á N4

Kristinn R. Ólafsson eða Króli eins og hann var kallaður í MA sem er 40 ára stúdent og annar veislustjórinn Þuríður Óttarsdóttir, alltaf kölluð Þura og er 25 ára stúdent mættu í viðtal á N4 í dag. Ræddu þau um árin í MA, endurfundina og MA-jubilantahátíðina sem verður 16. júní. Innslagið verður sýnt í Föstudagsþættinum á N4 í kvöld.

 

N4

Auglýsing um hátíðina

Hér má sjá auglýsingu um hátíðina sem birtist í Dagskránni og í Fréttablaðinu á morgun.

Allt er vænt sem vel er bleikt!

Auglýsing MA-hátíð 2013

Veislustjórar kvöldsins kynntir til leiks

Veislustjórar kvöldsins verða þau Þuríður Óttarsdóttir og Þórgnýr Dýrfjörð. Þeir sem ekki þekkja til þeirra ættu að lesa eftirfarandi pistil samstúdents þeirra Þorgeirs Tryggvasonar:

Góði veislustjórinn og vondi veislustjórinn

Þórgnýr Dýrfjörð, siglfirska prúðmennið sem stýrir Akureyrarstofu, er annar tveggja sem ætlar að reyna að hafa stjórn á samdrykkju misprúðra júbílanta 16. júní. Það ætti ekki að vefjast fyrir honum, því á stofugangi hversdagsins þarf hann að halda prímadonnum í menningargeiranum góðum milli þess sem hann hefur ofanaf fyrir túristum sem velta með sjóriðu af skemmtiferðaskipum eða kútveltast niður Hlíðarfjall. Þegar heim er komið eru það svo frúin og börnin þrjú sem kalla á athygli hans. Gera má ráð fyrir að Þórgnýr verði Bastían bæjarfógeti í veislustjórateyminu. Hið milda og heimspekilega yfirvald sem vill að fólkið „lifi og leiki sér“.

Ef mýktin dugar ekki til að halda samkomunni norðan við siðsemismörk kemur til kasta kvenskörungsins Þuríðar Óttarsdóttur. Hún kann reyndar miklu fleiri en eitt lag, enda ljóðelsk og af hagyrðingum komin, og þau eiga öll – flest – við hér. Að öðru leyti mun hún ekki hika beita fyrir sig aðferðum Soffíu frænku við að aga veislugesti. Skiljið ljónin eftir í fatahenginu. Þuríður er fjögurra drengja móðir og sprenglærður skólastjórnandi sem vinnur við að halda hirðu og skikk í sjálfu höfuðvígi og vöggu íslenska pönksins – Kársnesskóla í Kópavogi, svo ykkur er sæmst að gera eins og hún segir, og það hratt.

Endurfundatorg MA stúdenta – Jubílantinn

Nú hefur ný vefsíða litið dagsins ljós Jubílantinn – Endurfundatorg MA stúdenta.

Á síðunni kemur fram að til að styrkja enn frekar tengslin milli skólans og gamalla MA-inga hefur verið ákveðið að gefa út tímarit þar sem fjallað er um skólastarfið í dag en einnig brugðið upp fortíðarmyndum. Tímaritið ber nafnið Jubilantinn og mun vonandi koma út árlega í kringum 17. júní. Þetta fyrsta tölublað er einungis á rafrænu formi en að ári er stefnt að því að blaðið verði fast í hendi.

Jubílantinn er tengiliður skólans við afmælisstúdenta, útgefinn á hverju vori og tengist þeim sem fagna tímamótum hverju sinni.

Ritstjóri Sigurlaug Anna Gunnarsdóttir sigurlaug@ma.is
Ritnefnd skipa auk hennar Arnar Már Arngrímsson arnar@ma.is  og Hildur Hauksdóttirhildur@ma.is
Uppsetning og vefumsjón Guðjón H. Hauksson og Sverrir Páll

Tillögur um efni og myndir má senda ritstjórn.

Við 25 ára stúdentar fögnum þessu nýja endurfundatorgi MA stúdenta og hlökkum til að leggja okkar af mörkum til að það megi vaxa og dafna í framtíðinni.