Velkomin á vef MA stúdenta 1988

Home » Manstu …..

Manstu …..

Ég man…

Voða mikið eftir beiskbrjóstsykruðum andardrætti Bebbýjar á hægri hönd í tíma, – en er enn að reyna að gleyma salemlightútireyktum andardrætti Þórðar á þá vinstri.

Þegar kviknaði í hárinu á Jóa Har í H-inu og hann var lengi vel kallaður Michael Jackson.

Eftir tryllt flotta gamla Citroen bílnum hennar Kikku, sem lyfti sér sjálkrafa upp að aftan og tætti í gegnum alla snjóskafla. Geggjað!

Þegar ég söng einsöng með kórnum á dimmisjón í Sjallanum og gleymdi textanum og hætti að syngja. (Sjitt! Hvað er ég að rifja upp það helvíti?) Gisela sæta vorkenndi mér agalega mikið.

Þegar við Þura sátum í stofuglugganum heima hjá henni í Þórunnarstrætinu – ungmeyjarstúkunni þeirri- og horfðum á strákana á Vistinni spila fótbolta og svitna á furðulegustu stöðum.

Þegar Stína Sigfús tók okkur í hugleiðslu í líffræðitíma. Offi steinsofnaði og hraut hátt.

Þegar Erlingur Sig rak mig út úr tíma fyrir að geta of oft upp á orðunum sem hann fann upp á í hengingarleik. Já! Svona eiga kennarar að vera!

Þegar Þura sagðist sofa með skólabækurnar undir koddanum nóttina fyrir próf, því þannig síaðist innihald þeirra inn í kollinn á henni. Ætli hún kenni þessa lærdómstækni í dag?

Þegar Jón Marinó kallaði mig „Hildur Súperman“ fyrir að vera með sex pör af herðapúðum. Bíddu, síðan hvenær hefur hann haft vit á tísku?!?

Þegar vöðvafjallströllið Jón Már íslenskukennari gekk fram hjá okkur Bebbý þar sem við biðum eftir tíma. Bebbý stakk upp á því að ef kæmi til kjarnorkustyrjaldar skyldum við brytja hann niður í frystikistu, þá ættum við alltaf eitthvað að borða. That´s my girl!

Þegar við tókum upp lagið hans Halla úti á Hjalteyri fyrir Annir og appelsínur. Það var skítkalt, við vorum öll dúðuð, nema Halli. Hann var í hvítum stuttermabol og með brúnkukrem.

Hvað skólataksan mín var hrikalega þung. Jesús Pétur hvað ég tók námið alvarlega!

Þegar Stebbi Þorláks bauð okkur öllum heim til sín, og hvað mér fannst hann hrikalega skemmtilegur með allar sínar fyndnu limrur og hlátursrokur.

Og já, ég man eftir kringlu með osti í örbylgju í Möðró. Og TAB með. Á hverjum degi. Þarna lagði ég grunninn að minni rómuðu appelsínuhúð.

Já, það er margt sem MA gaf mér.

Hildur Lofts  4.A.

 

Þegar við tókum viðtalið við Megas í Möðruvallakjallara eftir tónleika og hann var viss um að upptökutækið væri rakvél.

Þegar við ýttum bílnum hans Kiddi í bæinn.

Þegar ég ákvað að læra fyrir eðlisfræðipróf í staðinn fyrir að vera með í mynbandsgerð u-bekkjarins fyrir dimmissio-hátíðina. Hef ekki séð eins mikið eftir neinu hingað til.

Þegar við fórum til Ísafjarðar að keppa í MORFÍS ræðukeppni, þá var beint flug með FN: Akureyri-Ísafjörður, við töpuðum naumlega enda á útivelli.

Þegar Muninn kom út með sérútgáfu og myndaseríu frá Ibiza-útskriftarferðinni og það voru bara myndir af strákum í blaðinu, Jón Hjalti var ritstjóri.

Þegar við fórum alltaf í Fjósið í körfubolta og Bjarni Öss var langbestur.

Þegar Þura skemmtanastjóri valdi okkur Kidda skemmtikarfta ársins því við rigguðum alltaf upp nokkrum atriðum fyrir kvöldvökurnar hennar.

Þegar Böddi hætti í félagi vinstrimanna og gekk í Flokkinn.

Þegar okkur þótti það sérstakt að Gísli skólameistari væri svona alþýðlegur og spjallaði við okkur 1. bekkinga hjá Möðruvöllum.

Þegar það var alltaf snjór og gott veður í Fjallinu.

Hlynur Hallsson

ÁsabyggðÉg átti aldrei pening í MA. Ég vann sem verkamaður á sumrin og varð að láta mér það duga út veturinn, engin hliðarkreditkort í þá daga nema hjá Viggó.  Ég komst aldrei inn á heimavist enda ekki sonur neins sérstaks auk þess sem móðir mín var kommakelling sem hafði lent í þrætu við Tryggva skólameistara. Tryggvi gætti þess enda ætíð að (þá) lágvaxni Reykvíkingurinn sem alltaf var að rífa kjaft fengi ekki inn á vistina.

Leigan tók aðeins í þó ég leigði hjá góðu sanngjörnu fólki og hún þýddi að sjálfsögðu minni kaupmátt. Ég var m.ö.o. alltaf blankur. Fjögur ára blankheit lýstu sér einkum í því að síðustu tíu daga hvers mánaðar var mánaðar-vasapeningurinn búinn. Þá kom sér vel að eiga góða að, eiga sín “skjólshús”.

Heimili ömmu og afa Bjarna vinar míns varð mitt helsta “skjólshús” á þessum árum. Þangað gat ég komið hvenær sem er, oftar en ekki sársvangur og jafnvel stundum smá einmanna, sest niður við borðstofuborð Bergljótar, spilað Jatzí (tapaði reyndar alltaf fyrir Beggu og Bjarna JR) og Lönguvitleysu, drukkið mjólk og borðað sætabrauð. Svo var trikkið (aldrei viðurkennt það fyrr en nú) að sitja nógu lengi til að fá boð í kvöldmat. “Kvöldmat, nei það er algjör óþarfi” sagði ég þá við heiðurshjónin Beggu og Bjarna eldri sem tóku að sjálfsögðu aldrei neitt annað í mál en bjóða mér í mat. Eftir kvöldmat var svo spilað meira Jatzí (ég tapaði að sjálfsögðu), kjaftað, spáð og spekúlerað, drukkin ísköld mjólk og borðað kex. Heimilisfólkið í Ásabyggð 5 losnaði svo sjaldnast við mig fyrr en löngu eftir myrkur.

Einu skiptin sem ég treysti mér ekki til að dingla bjöllunni í Ásabyggð 5 var eftir hatrammar deilur við Bjarna um Man.Utd. vs Liverpool eða Marxisma vs. Kapítalisma. Ég þá bæði púlari og marxisti, hann júnætid maður og kapítalisti alltaf skynsamari en ég. Lagði ekki alveg í vin minn B.Öss á heimavelli eftir slíkar rimmur.

Þegar þannig var ástatt og til að dreifa álaginu átti ég mér annað “skjólshús”, ekki svo ýkja langt í burtu. Ég gat nefnilega líka rölt yfir í Ásabyggð 2 hvar aðrir yndislegir velunnarar mínir bjuggu, foreldrar vinar míns Hlyns Hallssonar. Í Ásabyggð 2 líkt og 5 var ég alltaf velkominn, þar spilaði ég reyndar ekki Jatzí en fékk pönnukökur með rjóma og banönum og jurtate, Hlynur var líka Marxisti eins og ég og hafði engan áhuga á fótbolta.

Þannig tókst mér 16,17 ára barninu, blönku, 400+ km. að heiman, án gsm og internets, með hjálp góðra vina og gestrisni þeirra að hafa það bara skrambi gott. Með hjálp vina og velunnara sem skutu “skjólshúsi” yfir lítinn skrækróma fugl að sunnan. Þar tókst mér að stækka, fitna, dafna og verða að lokum stúdent ´88.

Þegar ég kvartöld síðar hugsa tilbaka er ég ekki viss um að hefði haldið þetta út án hlýju og umhyggju heiðursfólksins í Ásabyggð.

Björn Ársæll

Fyrstu sporin – eins og ég man þau…..

Kominn norður til ömmu og afa. Nýr kafli. Egóið brothætt í meira lagi en auðvitað aðal málið að halda kúlinu. Þekki engan nema Bödda fóstbróður og svo Hlyn sem býr neðar í götunni. Hlynur er alltaf glaður í bragði og borðar mikið af eplum. Og svo hlustar hann á Public Image Limited sem er auðvitað aðeins skrýtið. Við Böddi leggjum af stað í skólann niður Ásabyggðina. Ég er í rauðri dúnúlpu keyptri í Skátabúðinni á Snorrabraut. Langaði auðvitað í Millet en var ekki nógu ýtinn við mömmu. Allavega ánægður með skóna, Adidas Topten. Við erum báðir með skjalatöskur eins og fínir herrar. Mín er Samsonite úr svörtu plasti. Í Byggðaveginum þarf Böddi að binda skóna og biður mig að halda á töskunni sinni rétt á meðan. Ég ranka við mér á horninu við vistina, búinn að bera töskuna hans alla leið. Ekki í síðasta sinn sem ég fell fyrir þessu bragði.

Hinir í bekknum eru flestir á vistinni og farnir að þekkjast. Hálfdán og Harrí með allt undir kontról. Við kynnumst Kidda og Jón Hjalta í gegnum Hlyn. Þeir hafa sagt okkur að Reykjavík hafi akkúrat ekkert framyfir Akureyri. Og þá skellur á kennaraverkfall. Langir dagar yfir engu. Spila yetsí og bakkamon við ömmu. Ryksuga fyrir hana á föstudögum með Born in the USA í vasadiskóinu. Böddi vill spila kleppara en ég hef ekki taugar í það og á ekki séns í hann hvort eð er. Svo sakar hann mig um svindl í ólsen. Átta mig þá á að líklega er hann að svindla á mér. Væflumst á Billann en aldrei lengi því ég kann ekki tölvuspil og takmarkað hvað hægt er að halda kúlinu þarna þegar maður þekkir ekki neinn. Reynum að redda víni. Að tillögu Bödda fer ég meira að segja í ríkið og þykist vera Svíi. Segi afgreiðslumanninum á lýtalausri Stokkhólmsku að ég sé tuttugu og eins árs og búi eins og er á tjaldstæðinu. Þetta gengur auðvitað ekki enda frekar desperat. Eina ráðið að brugga. Setjum ger, sykur og vatn á flöskur. Tappinn á og inn í fataskápinn hans Björns. Það fer allt af stað, tappar fljúga og það pusast um allt. Smá byrjunarerfiðleikar. Um leið og maður opnar húshurðina skellur á manni stæk gerstybba. Með ólíkdum að Rósa leigusali skuli ekki segja neitt. Yngvi í Hólabúðinni selur okkur stoppara, felliefni og áfengismæli. Hellum varlega ofanaf – þetta er 12%. Ekki alveg tært en allt er hey í harðindum. Bekkurinn drekkur þetta í fyrsta bekkjapartíinu og það eru allir glaðir. Maður er meira að segja farinn að tala við liðið. Þetta er allt að koma.

Bjarni Össurarson

Staðurinn þar sem allir mæta og tala um heima og geima saman. Borða saman. Hlægja saman. Eiga í rökræðum saman. Skapa saman. Sögu. Ljóð. Óð. Hlusta á tónlist saman. Dansa saman. Skemmta sér saman. Pæla saman. Dreyma saman. Læra saman. Vona það besta saman. Gleðjast saman. Deila saman hringlaga básum. Kúra saman í faðmi skólans og þræða bönd vinskapar. Staðurinn þar sem hjartað slær. Stundum ört. Stundum hægt. Staðurinn þar sem allt kemur heim og saman. Möðruvallakjallari.

Magnea Marinósdóttir

Manstu… kringlu með osti og kókómjólk frímínútum í Möðruvallakjallara.

Manstu… vatnsslaginn milli T og U á Möðruvöllum undir stjórn Sigga Bjarklind?

Manstu… þegar við skrúfuðum hjólin undan bílnum hans Halla á planinu utan við Möðruvelli?

Manstu… þegar við héldum á bjöllunni hennar Helgu Bjargar og færðum hann í annað stæði?

Manstu… Sverri Pál með hönd aftan við höfuð?

Manstu… Níels sitjandi úti í glugga?

Manstu… vestið hans Erlings?


2 Comments

  1. Þura says:

    Skemmtilegt að lesa þetta, allt lifnað einhvern veginn við.

  2. Valdís says:

    Vá gaman að lesa þetta – Bjarni, það eru síðan komin heilmikil viðbrögð við pistli þínum á fesbókinni, um mikilvægi Millet-úlpu eignar á þessum árum 🙂

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: